DRÍFUVINAFÉLAGIÐ
Veiðisafnið á Stokkseyri í samvinnu við afkomendur Jóns Björnssonar byssusmiðs frá Dalvík stóðu fyrir stofnun Drífuvinafélagsins laugardaginn 12.mars 2005 í húsakynnum Veiðisafnsins Eyrarbraut 49 – Stokkseyri og teljast stofnfélagar vera um 130.
Drífurnar frá Dalvík
Jón Björnsson fæddur 16.október 1907 er án efa afkastamesti byssusmiður er uppi hefur verið á Íslandi, en hann lést 7. janúar 1991.
Nefndi hann byssur sínar DRÍFUR og er einstakt í Íslandssögunni að einn og sami maðurinn hafi smíðað á annað hundrað haglabyssur en þær eru á bilinu 120. Allar þessar haglabyssur eru 12ga. 3”, með boltalás og hlauplangar, listasmíði og einstakar sem söfnunargripir komandi kynslóða. Margir veiði- og byssumenn, á Íslandi í dag hafa heyrt af þessum byssum Jóns, en það ber að nefna að sjaldan koma þær í endursölu og vitað er um einstaklinga sem eiga fleiri en tvær.
Eitt af markmiðum Drífuvinafélagsins er að heildarsamantekt á fjölda og útgáfum ásamt númeraröðun þeirra eigenda er þess óska verði aðgengileg á einum stað og er heimasíða félagsins hýst hér á www.hunting.is í boði Veiðisafnsins og hér má finna helstu upplýsingum um Jón Björnsson og Drífurnar frá Dalvík. Veiðisafnið hefur einnig í samráði við afkomendur Jóns sett upp til sýningar muni og nokkur verkfæri Jóns ásamt byssu nr.144 og 145 en fyrsta Drífan var merkt nr.101.
Jón Björnsson
Jón Björnsson er fæddur í Göngustaðakoti í Svarfaðardal, búsettur á Dalvík, var húsgagnasmiður að mennt og vann við húsgagnasmíði og húsbyggingar í mörg ár, en um 1977 fór hann að fást við byssusmíði.
Áður hafði hann ásamt trésmíðinni gert við byssur, m.a. smíðað skefti, fjaðrir, pinna ofl. og er Marlin Goose Gun sem nágranni Jóns, Helgi Jakobsson átti að öllum líkindum fyrirmynd hans að Drífu haglabyssunum sem hann smíðaði á árunum 1977 – 1990, flestar einsskota, 120 númeruð eintök og eru fyrstu byssurnar skráðar 1978. Jón númeraði allar sínar byssur og er vitað að hann byrjaði á númerinu 101 og er Drífa númer 220 síðasta byssan sem hann smíðaði árið 1990 þá 83 ára gamall.
Þegar fyrsta Drífan nr.101 og síðasta nr. 220 eru bornar saman kemur fram dálítill munur er snýr að innri smíði og frágangi, bæði vinnu og efnislega en ytra útlit er ekki svo frábrugðið að undanskildum skeftum og bláma, gildir það reyndar um Drífurnar flestar og ef reynt er að flytja bolta á milli lása, kemur í ljós að sérsmíðin er það mikil hjá Jóni að boltar ganga ekki á milli ólíkra lása, ólíkt því sem þekkist af verksmiðjusmíðuðum hlutum, byssutengdum. Þar sem Jón hafði ekki tök á að rafsjóða, svo sem láshús og boltafestingu á hlaup fyrir skefti, varð hann að fá þessa vinnu unna af öðrum.
Birnir sonur hans sá um efnispöntun og suðuvinnu ásamt Jóhannesi Hafsteinssyni sem aðstoðaði Jón með suðu og fleira, einnig aðstoðuðu þeir hann við borun og bláma, voru fyrstu Drífurnar kaldblámaðar, en fljótlega fór Jón að heitbláma byssurnar og var það frændi hans, Ásmundur Jónsson kennari á Akureyri sem útvegaði formúluna frá USA.
Annar frændi Jóns, Hjálmar Randversson var honum innan handar með heitblámun og voru oftast blámuð tvö hlaup í sama sinnið í bakka sem Jón hafði smíðað ásamt festingum fyrir hlaupin, upphitað með gasi, hélt annar á og hinn hitaði.
Einnig blámuðu þeir oft marga smáhluti í einu, uppþrædda á vír og vitað er að eldri byssur (kaldblámaðar) voru pússaðar upp og heitblámaðar. Aftara sigti á hlaupin var silfurkveikt og það fremra snittað.
Boltaefnið fékk Jón m.a.úr afgöngum af skrúfuöxlum á Dalvík og Birnir sonur Jóns sá einnig um að panta skrúfuöxla sem þá voru framleiddir fyrir Sabb bátavélar og líkaði Jóni vel en þetta notaði hann í boltann sjálfan en öxulstál notaði hann í láshúsið og efnisrör í hlaupin úr mjúku stáli, útborað 16mm og síðan vann hann þau með handborvél, fræsara og í rennibekk upp í 18 mm nema fremst þar sem þau eru um 17 mm og vitað er að hann smíðaði sín verkfæri sjálfur, ef þannig stóð á m.a borinn sem hann notaði við hlaupin, efni kom frá Nathan & Olsen og Sindra í Reykjavík. Haft er eftir Jóni að vinnan við hlaupin væri misjöfn, það færi mikið eftir framleiðanda, oft væru eitlar í efninu eða það kom bogið og tók það Jón um 3-4 vikur að fullgera byssu.
Sonarsonur Jóns, Jón Björn Bragason merkti talsvert af Drífunum fyrir afa sinn með sérstakri vél, líklega eftir framleiðslunúmer 160 því fram að þeim tíma merkti Jón allar byssurnar með höggstöfum, en oftast vann hann að tveimur byssum í einu . Jón Björn merkti líka fyrir afa sinn, með sömu vél, framleiðsluár á þó nokkrar Drífur, oftast á láshúsið neðanvert undir skefti, sumar beint á hlið.
Drífurnar eru með boltalás, að hluta til úr ryðfríu stáli og voru þær breytilegar hvað varðar skefti, hlaup, áferð og fl., en Jón smíðaði allt er notað var í byssur sínar, notaði hann m.a. tinda úr heyvinnuvélum og flatjárn úr sparksleðmeiðum til smíðanna, jafnframt notaði hann ventlagorma í útdragarana og vitað er að hann hafði áhuga á því að fá byssurnar þrýstiprófaðar erlendis, en af því varð nú aldrei. Skeftin voru úr Beyki en einnig smíðaði hann nokkur skefti úr Ramin og voru þau lökkuð með Leifturlakki, eru þau flest áþekk að lit og lögun, með frávikum þó er á leið og ber að nefna fingurgróf á allmörgum af síðustu Drífunum. Eitt stærsta vandamál Jóns virðist hafa verið skortur á efni til smíðanna en sparksleðastálið hitaði hann rauðglóandi og dýfði því svo í bráðið blý til herðingar, var það notað í pinnann í boltanum.. Ekki vildi Jón selja hverjum sem var haglabyssu og er vitað að hann fann fljótt inn á menn, í samtölum og jafnvel í síma, hvort viðkomandi væri verðugur Drífueigandi og voru margir á biðlista um byssur þegar hann lést.
Magasínbyssur eru til sem taka tvö skot í laust magasín og eitt í hlaup, samtals þrjú skot og smíðaði Jón þær allar á svipuðum tíma en þá þegar hafði hann gert eina tveggjaskota byssu sem tók tvö skot hvort ofan á annað, eigandi hennar er Gunnar sonur Jóns. Voru Jóni útveguð tilbúin magasín frá Savage í USA árið 1986 samtals 8 stykki, vitað er að hann framleiddi 5 Drífur með magasínum, eitt gekk af og er það til, enn í umbúðum og tveir fengu tvö. Smíðar Jóns voru ekki eingöngu bysssutengdar og ekki er hægt að tala um Jón Björnsson á annan hátt en snillingum sæmir, hann smíðaði m.a. tauþvottavél um 1950, fiðlu sem hann spilaði á sjálfur, standborvélar, rafmagnshefla steypta úr áli, einnig smíðaði hann úr kopar, litla rokka, kleinu og laufabrauðsjárn, kertastjaka, silfurbúna skeiðarhnífa, tóbakspontur, píska, verkfæri og fl., þar á meðal riffil, að undanskildu hlaupinu og er hann til, fram hefur komið í viðtölum við Jón að fyrstu byssuna smíðaði hann 12 ára, var það skammbyssa, einsskota fyrir lítil riffilskot, líklega .22cal.
Í viðtölum við Jón kemur einnig fram að hann hafi ekki veitt með Drífu en vitað er að Jón gekk til rjúpna á yngri árum. Byssusmíði Jóns hefur án efa mælst misvel fyrir á Dalvík á sínum tíma og ekki nema eðlilegt að allir hafi ekki verið hrifnir af þessari framleiðslu, hitt er annað að hér er um einstakt framtak að ræða og ætti að kynna til komandi kynslóða sem stórt afrek í íslenskri iðnaðarsögu.
Páll Reynisson/Veiðisafnið
Aðrar heimildir um Jón Björnsson:
- DV laugardagur 26.janúar 1985
– viðtal Ólafur B. Thoroddsen - Dagur Akureyri föstudagur 29.nóvember 1985
– viðtal Gestur Einar Jónsson - Sportveiðiblaðið 1987
– viðtal Gylfi Kristjánsson - Iðnaðarmenn I - bók útgefin af IÐNÚ útgáfunni 1987
Útgáfunefnd:
Atli Rafn Kristinsson
Jón Böðvarsson
Sigurður Kristinsson
Eigendur
Félagar geta allir orðið sem eiga Drífur og /eða hafa áhuga á Drífum og skotvopnum og veiðum allmennt, skráning er öllum að kostnaðarlausu.
Óskað er eftir því að sem flestir Drífueigendur skrái sig/sínar byssur í félagið svo halda megi á einum stað upplýsingum sem og framtíðarskráningu, er þetta eitt af fyrstu rannsóknarverkefnum Veiðisafnsins ses. sem tengist skotveiðum á Íslandi.