Veiðimenn
Einar Þorgeir Húnfjörð Guðlaugsson
- Einar frá Þverá -
30 mars 1920 - 2 apríl 2008
Einar Þorgeir Húnfjörð Guðlaugsson fæddist að Þverá í Norðurárdal í Austur-Húnavatnssýslu 30. mars 1920. Hann lést af slysförum við veiðar ásamt veiðifélaga sínum Flosa Ólafssyni 2. apríl 2008, 88 ára að aldri.
Einar var án efa einn af afkastamestu minka og refaveiðimönnum á Íslandi í langan tíma og er hann einnig upphafsmaður refaveiða úr sérbyggðu skothúsi hér á landi þar sem veiðimaður beið yfir æti, en fyrsta húsið smíðaði hann sérstaklega til refaveiða um 1964, var það gert úr plastefni og þótti nýjung á þeim tíma. Fram að því var algengt að menn væru í hlöðnum skotbirgjum, í ýmsum útgáfum. Var hér um vetrarveiði að ræða.
Einar ásamt Sveini Einarssyni fyrrverandi veiðistjóra voru þeir fyrstu til að setja sjónauka á haglabyssur til refaveiða og vekur það eftirtekt að þeir eru að gera þetta á sama tíma og þetta kemur fyrst fram í USA. Áður höfðu þeir prófað sig áfram með lágspennt ljós, með misjöfnum árangri. Landsþekkt er Zabala Magnum 10ga. haglabyssa Einars sem hann er með á myndinni er birtist af honum í bókinn Íslendingar eftir Sigurgeir Sigurjónsson og Unni Jökulsdóttur á bls.24 og er greinin sem fylgir skyldulesning fyrir alla er að tófuveiðum koma. Tíminn segir sína sögu á langri ævi og sérstak var að heyra Einar segja frá því að eitt sinn var skinn af fallegum mórauðum ref virði á við þrjá gemlinga til útflutnings, og hver hefur heyrt um skyldudag, sem þá var og hét, í júnímánuði ár hvert, þar sem bændur voru skyldaðir til að skaffa menn til grenjaveiði.
Annað er upp á teningnum í dag og er líklegt að Einar hafi upplifað einhverjar mestu breytingar sem orðið hafa í nokkurri tegundaveiði á Íslandi. Veiðisafni í samvinnu við ættingja Einars hafa sett upp til sýningar byssu og persónulega muni frá Einari honum til heiðurs.
Sigurður Ásgeirsson
- Siggi Tófa -
19 des 1930 - 17 apríl 2008
Sigurður Ásgeirsson fæddist að Ytri-Sólheimum í Mýrdal 19. desember 1930. Hann lést á Lundi, hjúkrunar- og dvalarheimilinu á Hellu 17. apríl 2008.
Sigurður Ásgeirsson, Siggi tófa, var og verður að öðrum tófuskyttum ólöstuðum á Íslandi sá veiðimaður sem öllum kom hvað mest á óvart er ekki þekktu. Með skjálfta í höndum, augun kvik og rólegheitin uppmáluð var líklega ekkert sem hefði fengið hann úr jafnvægi og þegar kom að því að taka skotið, þá komst hann í annan heim, sem enginn veiðimaðu hér á landi komst í, því það var bara einn Siggi.
Sigurður starfaði hjá Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti þar sem hann bjó einnig til margra ára, landsþekktur fyrir sínar sérsmíðar ásamt fleiru. Það eru ekki margar tófuskyttur á Íslandi sem hafa ár eftir ár veitt yfir 100 dýr og sum árin yfir 130, að ónefndu ýmsu öðru, en veiðar stundaði Siggi fyrir utan tófu og mink, má þar nefna varg o.fl. En tófan og minkurinn áttu hug hans allan og þeir eru margir sem stigu sín fyrstu spor í veiði með Sigga og er líklegt að þeir veiðimenn búi að því alla ævi.
Riffilskytta var Siggi með eindæmum og margar frásagnir eru til af hans snilldarskotum og líklegt er að enginn í hans samtíð hafi þekkt atferli tófunnar betur, né skilið hvað þurfti til að ná þessum fjölda dýra sem hann gerði. Haglabyssur notað Siggi einnig og er hann með þeim fyrstu til að setja sjónauka á sýnar haglabyssur sem lengst af var Remington SP 10 10ga. Einnig átti hann Sako riffil sem hann lét breyta í cal. 220 Swift sem hann notaði til margra ára, síðast með ásettu hlaupi frá Jóhanni Vilhjálmssyni.
Veiðisafnið hefur eignast þessar byssur Sigurðar ásamt persónulegum munum og eru þessi munir settir upp hér, honum til heiðurs.
Sigmar B. Hauksson
Formaður Skotvís
3.október 1950 – 24.desember 2012
Sigmar B Hauksson fæddist 3. október árið 1950, en hann lést í Reykjavík 24. desember 2012 eftir stutta og snarpa baráttu við veikindi, rúmlega 62 ára að aldri.
Sigmar fór snemma úr foreldrahúsum til sjómennsku, bæði á fiski- og farskipum í nokkur ár. Sigmar fór síðan til náms til Svíþjóðar árið 1969, fyrst við lýðháskólann í Kungelve og síðan fjölmiðlunarnám í Gautaborg. Sigmar var landsþekktur fyrir störf sín á fjölmiðlum. Hann hóf störf við dagskrárgerð árið 1970 hjá Ríkisútvarpinu bæði hjá fréttastofu útvarpsins og einnig við þáttagerð m.a. stjórnaði hann um árabil morgunútvarpinu með Páli Heiðari Jónssyni.
Hann gerði bæði matreiðslu- og ferðaþætti í sjónvarpi, má þar nefna m.a. Eldhús sannleikans, Sjö borgir og Veisla í farangrinum sem nutu mikilla vinsælda. Þá skrifaði hann reglulega pistla í tímaritið Skotvís og Morgunblaðið svo eitthvað sé nefnt. Sigmar starfaði einnig við ferðamál, sem farastjóri og leiðsögumaður og síðari ár við ráðgjöf á sviði ferðamála og atvinnumála. Síðast starfaði Sigmar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Sigmar lagði margt til skotveiða á Íslandi sem formaður Skotveiðifélags Íslands á árunum 1995-2011. Hann var þar fremstur í flokki með að bæta ímynd skotveiðimanna, þar sem hann hvatti skotveiðimenn til þess að virða náttúruna í hvívetna, en náttúran var hans helsta hugðarefni og átti hún mjög stóran þátt í lífi hans. Með ástríðu sinni á málefnum skotveiðimanna, efldi Sigmar alla umræðu um skotveiðar í íslenskri náttúru og eftir hann liggja mörg fróðleg erindi, bæði í fjölmiðlum og ekki síst í í tímaritinu Skotvís sem hann hann ritstýrði frá stofnun (1995).
Veiðar stundaði Sigmar bæði hér heima og erlendis, bæði skot- og stangaveiði var honum hugleikin og ekkert átti hug hans meira en að elda úr sinni bráð svo eftir var tekið. Náttúruvernd og veiði fóru saman hjá honum eins og mörgum veiðimönnum sem taka veiðieðlið og umhugsun fyrir náttúrunni alla leið. Sigmar var hugsjóna- og baráttumaður í þeim málefnum sem hann tók fyrir og öflugur málsvari þeirra í ræðu og riti. Hann var sögumaður góður og átti létt með samskipti við fólk, sem kom sér vel við vinnu að framgangi málefna.
Skotveiðimenn á Íslandi samtímans fá seint þakkað Sigmari samvinnu hans við yfirvöld er kemur að skotveiðum hér heima, víðsýni hans og skilningur á málefnum skotveiðimanna fór kannski ekki eins hátt og við vitum almennt. Er ljóst að Sigmar er meiri áhrifavaldur um framtíð skotveiða hér á landi en fram hefur komið.
Veiðisafnið hefur í samvinnu við ættingja Sigmars sett upp til sýningar byssu og persónulega muni frá Sigmari honum til heiðurs.
Heimildir:
Veiðisafnið
Jón Víðir Hauksson – Haukur Bent Sigmarsson – Rúnar Bachmann
Skotvís
Skotveiðiblaðið
Sveinn Reynir Einarsson
Veiðistjóri
14.janúar 1917 – 2.nóvember 1984
Sveinn Einarsson fæddist 14. janúar 1917 í Miðdal í Mosfellssveit en lést 2. nóvember 1984. Sveinn varð fyrsti veiðistjóri á Íslandi árið 1957 og gegndi því embætti í 26 ár.
Sveinn ólst upp í Miðdal við sterka náttúrukennd og veiðar eins og bræður hans. Hann lærði leirkerasmíði í Þýskalandi árin 1936-1938. Að námi loknu var hann í samstarfi við Guðmund bróður sinn í Listvinahúsinu á Skólavörðuholti til ársins 1953. Árin 1954 til 1957 stundaði Sveinn meðal annars grenjaleit á vorin og sjó á veturna. Sveinn var skipaður veiðistjóri 1957 og settur 1. janúar 1958. Hann var sá fyrsti er gegndi því starfi, enda kunnáttu- og áhugamaður um veiðar og öllu þeim tengdu.
Sveinn hafði þann háttinn á, er að veiðistjórnun kom, að vinna með þeim veiðimönnum sem stunduðu refa- og minkaveiðar á þessum tíma. Má þar nefna Einar Guðlaugsson á Blönduósi (frá Þverá), Jónas og Bjarna Bjarnasyni, Guðbjörn Guðmundsson, Sigurð Ásgeirsson og fleiri. Sveinn tileinkaði sér að nota hunda, sérstaklega til minkaveiða. Hann starfaði með veiðimönnum og þekkt er samstarf hans með hinum danska Carl Anton Carlsen minkabana sem var fyrstur til að stunda skipulagðar minkaveiðar hérlendis ásamt ræktun og þjálfun veiðihunda. Veiðistjóraembættið studdi og tók síðan við þeim rekstri.
Ljóst er að frumkvæði þessara manna var einstakt og betur væri fyrir okkur komið, veiðilega séð, ef framhald hefði orðið á þessum veiðiskap er þeir stunduðu. Sveinn var, ásamt Einari á Blönduósi og fleirum, frumkvöðull í því að setja sjónauka á haglabyssur til refaveiða. Kom það sér vel við æti að vetri til en um næturveiði var að ræða. Þessi veiðitækni var fyrst kynnt í Bandaríkjunum á sama tíma og ljóst er að þeir voru mjög framarlega í að nýta sér veiðitækni síns tíma.
Sveinn átti frumkvæði að því að veita heimild til ráðinna minkaveiðimanna til að flytja inn og nota skammbyssur fyrir haglaskot 410 cal. til minkaveiða. Þessar byssur voru pantaðar af veiðistjóraembættinu og voru flestar ítalskar af gerðinni Serena. Þær eru þungar og hlaupstuttar og eru margar hverjar enn í notkun. Sveinn ritaði fræðandi greinar og eru þær eftirtektaverðar enn í dag. Hann skrifaði í Handbók bænda í áraraðir. Þá vann hann að greinargerðum vegna útgáfu nýrra laga um eyðingu vargs og málum tengdum veiðistjórnun.
Veiðisafnið hefur í samvinnu við ættingja Sveins sett upp til sýningar byssur og persónulega muni frá Sveini honum til heiðurs.
Heimildir:
Veiðisafnið. Börn Sveins. Aldnir hafa orðið- skráð 1984- Erlingur Davíðsson og Handbók bænda.